Græna kommóðan

Græna kommóðan hafði átt rólega daga hjá gömlu konunum hjá Kirkens Nødhjælp á Nørrebro. Dagarnir höfðu verið rólegir, en þó bærilegir síðan hún flutti hingað. Kerlingarnar voru fullar af skemmtilegum sögum og fólkið sem hingað kom voru oft kynlegir kvistir.

 

En í dag dró til tíðinda. Niðurrigndur maður í ljósbláum regnjakka og dökkbláum regnbuxum vafrar framhjá, heldur hokinn og viðutan. Hann gengur áleiðis framhjá notuðu fötunum, sem alltaf bera með sér sömu þungu en sætu lyktina, og að málverkunum sem prýtt höfðu stofur og ganga af öllum gerðum og gæðum. Myndefnin er hins vegar ekki af öllum gerðum, heldur ýmist ólgandi brim eða kyrrlátir skógar og engi. Nokkrar fuglamyndir hafa einnig þvælst með einu dánarbúinu.

Maðurinn í regnfötunum snýr við og kemur þá auga á grænu kommóðuna. „150 krónur“, segir önnur kerlingin. Hún tekur engin laun fyrir vinnu sína, en mættir samviskusamlega til starfa alla fimm daga vikunnar og tekur sér aðeins frí vegna safnaðarfunda. Raunar átti að vera fundur í dag, svo hún verður að bregða sér frá eftir að hafa afgreitt þennan unga mann, sem talar með einhverjum undarlegum hreim. Er hann sænskur? 

„Ég tek kommóðuna, en ég verð víst að sækja hana síðar í dag“, sagði maðurinn. Skömmu síðar er kommóðan í fanginu á þessum þrekvaxna manni þar sem hann reynir að troða henni í hjólavagn, sem öllum ætti að vera ljóst að er of lítill fyrir grænu kommóðuna. En maðurinn, sem er enn í regngalla, þó það sé nokkuð síðan það hætti að rigna, er augljóslega ekki á sama máli. Hann reynir ákaft að finna leiðir t.a. fá kommóðuna í vagninn.  

Kommóðan er engin fjaðurvigt og maðurinn er orðinn sveittur og pirraður. Á endanum rífur hann allar skúffurnar úr kommóðunni, treður þeim í hjólavagninn og leggur kommóðuna endilanga ofaná hjólavagninn. Hann heldur svo af stað á meðan kommóðan berst við að halda jafnvægi. Fyrst fer hann gangandi, en vex svo ásmegin og byrjar að hjóla eftir Nørrebrogade - öðru hjólreiðafólki til mikils angurs.

 

Ekki líður á löngu þar til kommóðan er stödd í ókunnri íbúð á þriðju hæð, þar sem er búið að troða hana fulla af vettlingum, húfum, treflum og peysum. Hokni maðurinn hefur rétt úr sér og dásamar nú grænu kommóðuna, sem að auki hefur verið þrifin bæði hátt og lágt.

En Adam var ekki lengi í Paradís og nýtilkomið sjálfstraust og gleði kommóðunnar við að hafa aftur öðlast tilgang og skúffufyllingu, bíður skipbrot þegar húsmóður heimilisins ber að garði. „Græn! Ég þoli ekki grænan... Hún er allt of lág! Hvað borgaðir þú fyrir hana? Hvar eiga skórnir að vera?“. Ekki bætti úr skák að maðurinn, sem nú er loks kominn úr regngallanum, segist hafa greitt 800 krónur fyrir grænu kommóðuna. Þá fyrst ætlar allt um koll að keyra og græna kommóðan óskar þess að hún sé aftur komin í litlu búðina á Jagtvej.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband