Færsluflokkur: Bloggar
Græna kommóðan
11.6.2010 | 23:43
Græna kommóðan hafði átt rólega daga hjá gömlu konunum hjá Kirkens Nødhjælp á Nørrebro. Dagarnir höfðu verið rólegir, en þó bærilegir síðan hún flutti hingað. Kerlingarnar voru fullar af skemmtilegum sögum og fólkið sem hingað kom voru oft kynlegir kvistir.
En í dag dró til tíðinda. Niðurrigndur maður í ljósbláum regnjakka og dökkbláum regnbuxum vafrar framhjá, heldur hokinn og viðutan. Hann gengur áleiðis framhjá notuðu fötunum, sem alltaf bera með sér sömu þungu en sætu lyktina, og að málverkunum sem prýtt höfðu stofur og ganga af öllum gerðum og gæðum. Myndefnin er hins vegar ekki af öllum gerðum, heldur ýmist ólgandi brim eða kyrrlátir skógar og engi. Nokkrar fuglamyndir hafa einnig þvælst með einu dánarbúinu.
Maðurinn í regnfötunum snýr við og kemur þá auga á grænu kommóðuna. 150 krónur, segir önnur kerlingin. Hún tekur engin laun fyrir vinnu sína, en mættir samviskusamlega til starfa alla fimm daga vikunnar og tekur sér aðeins frí vegna safnaðarfunda. Raunar átti að vera fundur í dag, svo hún verður að bregða sér frá eftir að hafa afgreitt þennan unga mann, sem talar með einhverjum undarlegum hreim. Er hann sænskur?
Ég tek kommóðuna, en ég verð víst að sækja hana síðar í dag, sagði maðurinn. Skömmu síðar er kommóðan í fanginu á þessum þrekvaxna manni þar sem hann reynir að troða henni í hjólavagn, sem öllum ætti að vera ljóst að er of lítill fyrir grænu kommóðuna. En maðurinn, sem er enn í regngalla, þó það sé nokkuð síðan það hætti að rigna, er augljóslega ekki á sama máli. Hann reynir ákaft að finna leiðir t.a. fá kommóðuna í vagninn.
Kommóðan er engin fjaðurvigt og maðurinn er orðinn sveittur og pirraður. Á endanum rífur hann allar skúffurnar úr kommóðunni, treður þeim í hjólavagninn og leggur kommóðuna endilanga ofaná hjólavagninn. Hann heldur svo af stað á meðan kommóðan berst við að halda jafnvægi. Fyrst fer hann gangandi, en vex svo ásmegin og byrjar að hjóla eftir Nørrebrogade - öðru hjólreiðafólki til mikils angurs.
Ekki líður á löngu þar til kommóðan er stödd í ókunnri íbúð á þriðju hæð, þar sem er búið að troða hana fulla af vettlingum, húfum, treflum og peysum. Hokni maðurinn hefur rétt úr sér og dásamar nú grænu kommóðuna, sem að auki hefur verið þrifin bæði hátt og lágt.
En Adam var ekki lengi í Paradís og nýtilkomið sjálfstraust og gleði kommóðunnar við að hafa aftur öðlast tilgang og skúffufyllingu, bíður skipbrot þegar húsmóður heimilisins ber að garði. Græn! Ég þoli ekki grænan... Hún er allt of lág! Hvað borgaðir þú fyrir hana? Hvar eiga skórnir að vera?. Ekki bætti úr skák að maðurinn, sem nú er loks kominn úr regngallanum, segist hafa greitt 800 krónur fyrir grænu kommóðuna. Þá fyrst ætlar allt um koll að keyra og græna kommóðan óskar þess að hún sé aftur komin í litlu búðina á Jagtvej.
Bloggar | Breytt 12.6.2010 kl. 14:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Allskonar?
30.5.2010 | 21:18
Jú, það er rétt að það er betra að fylla pólitískt tómarúm með húmor en öfgum. Miklu betra! Breytir því hins vegar ekki að það er ekki fullkomlega ljóst hver skilaboð kjósenda voru í gær. Að öðru leiti en því að það er óánægja með þá flokka og það kerfi sem fyrir er. En hvað á að koma í staðin? Þeirri spurningu er enn ósvarað.
Þó ekki sé ljóst með hverju verður fyllt upp í tómarúmið (með öðru en með húmor) er um mjög jákvæðan gjörning að ræða. Tómarúmið er opið "leiksvæði": grundvöllur þess að virkja sköpunarkrafta og gefa nýjum möguleikum og nýjum lausnum rými. Óvissan og ójafnvægið sem hefur skapast með úrslitum kosninganna í Reykjavík, krefur borgarfulltrúa t.þ.a. leita jafnvægis og svara með öðrum hætti en þeir eru vanir.
Alls ekki er hægt að gera ráð fyrir að útkoman "leiksins" verði með einhverjum ákveðnum hætti. Ekki einu sinni að lausnirnar og kerfið verði nauðsynlega betra en það sem var fyrir. Það er ekki eins og gamansamar tillögur og óljós svör Besta flokksins varði nákvæmlega veginn í átt til betri borgar eða samfélags. Það mætti frekar orða það þannig að tilvera, orðræða og velgengni Besta flokksins rífi niður þær vörður sem fyrir eru og bjóði fólki að hlaða nýjar og komast þannig með öðrum hætti á annan áfangastað. En hvaða hætti og á hvaða áfangastað? Það er fyrir borgarfulltrúa og borgarbúa að ákveða.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fjórflokkurinn... uhh
17.5.2010 | 23:33
Fjórflokkurinn og Besti flokkurinn: nokkuð sniðugur og skemmtilegur listrænn gjörningur með alvarlegan undirtón. Hann stuðar og afhjúpar, eins og listir geta best gert. Kjósendur í Reykjavík eru svo að segja neyddir til að taka afstöðu til gjörningsins með sínum dýrmætustu borgaralegu réttindum. Kjósendur munu þar af leiðandi með beinum hætti taka afleiðingum afstöðu sinnar. Það er því ekki nóg að þykja Besti flokkurinn vera gott grín. Grínið er hér aðeins aðferð til að koma boðskap á framfæri. En "note bene" mjög mikilvægum boðskap.
Gefum okkur það að boðskapnum sé nú að mestu komið til skila, með misjafnlega beittum skopstælingum og klisjum - skemmtileg og nauðsynleg ádeila á íslensk stjórnmál. Eða er það svo? Eru kjósendur ekki tilneyddir til að standa við það sem kemur fram í skoðanakönnunum. Að öðrum kosti er ekki víst að þetta verði fjórflokknum sú "lexía" sem kjósendur virðast óneytanlega vilja. Sæti fjórflokkurinn ekki einmitt tryggari í sessi ef niðurstöður verða langt frá skoðanakönnunum.?Gefur það þeim ekki fullvissu um að jafnvel á þessum víðsjárverðu tímum, heldur fólk tryggð við fjórflokkinn, hið náttúrulega og óhagganlega í íslenskum stjórnmálum?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15,7
13.5.2010 | 22:28
urðu kílómetrarnir sem ég hljóp í dag. Ég hleyp jafnan í kringum Søerne sem margir þekkja og liggja í hjarta Kaupmannahafnar. Í eyrunum dundi ágæt tónlist frá strákunum í Nephew af Danmark - Denmark.
Það besta við að hlaupa í kringum Søerne er að þar eru alltaf fleiri að hlaup og maður lendir stöðugt í litlum ævintýrum. Í dag var ég t.a.m. hundeltur af konu í svörtum hlaupabuxum og bláum jakka. Við háðum mikið taugastríð þar til mér á endanum, eftir 6 km, tókst að hrista hana af mér. Það gerði ég af mikilli kænsku m.þ.a. rjúka yfir fjölfarin gatnamót á rauðu ljósi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sumarið í Kaupmannahöfn...
13.5.2010 | 11:14
...er ekki komið.
Hefur því verið aflýst sökum öskuskýs?
Er það ófjármagnað sökum fjármálakreppu?
Hefur það gengisfallið með Evrunni?
Var það flutt til Kína á heimssýningu með Hafmeyjunni?
Var það sett í gæsluvarðhald af sérstökum saksóknara?
Það er a.m.k. kominn tími til að lýsa eftir því hjá Interpol!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fyrsta færslan - borið í bakkafulla læki?
12.5.2010 | 10:38
Af hverju að blogga? Útrás af einhverju tagi er réttmætt svar.
Það eru takmörk fyrir því hvað maður getur hugsað marga "leiki" fram í tímann. Við getum hins vegar skerpt hugsunina m.þ.a. skrifa um vangaveltur okkar eða eiga í samræðum. Í því fáum við mótspil sem getur forðað okkur frá því að hugsa í hringi eða festast. Gallinn við svona blogg getur auðvitað verið sá að maður festist samt, þó með öðrum hætti sé. Að maður þori ekki að vera í mótsögn við sjálfan sig og þær skoðanir sem maður hefur áður sett fram. Veraldarvefurinn hefur skelfilega gott minni.
En að geta gagnrýnt og brotið niður eigin skoðanir eru mikilvægt. Einstrengingslegar og ófrávíkjanlegar skoðanir eru skelfilegur skaðvaldur sem hamlar gegn umbótum. Það er sorglegt að sjá ágætlega gefið fólk festast í eigin skoðanavef og berjast um á hæla og hnakka - ekki til að losna heldur til að verja þá skoðanaþræði sem hamla hugsunum þeirra. Og jú, vissulega er pólitíkin full af svona dæmum. Ekki síst á tímum sem þessum þegar svo margar undirstöður hafa fallið og frostkaldur veruleikinn afhjúpað morfís-sýndarveruleikann.
Bloggar | Breytt 13.5.2010 kl. 10:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)